Lög

LÖG ÍBÚASAMTAKA LAUGARDALS

1. grein

Félagið heitir Íbúasamtök Laugardals, skammstafað ÍL. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði er Sogamýrin ásamt hverfum norðan Laugavegs/Suðurlandsbrautar, milli Snorrabrautar og Elliðaáa.

2. grein

Tilgangur félagsins er:

  • a. Að vera samstarfsvettvangur íbúa og félagasamtaka á félagssvæðinu
  • b. Að vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfunum sem umlykja Laugardal.
  • c. Að stuðla að samhug innan svæðisins.
  • d. Að byggja upp samstarf við opinberar stofnanir sem hafa með málefni hverfisins að gera, og önnur íbúasamtök.

3. grein

Allir íbúar ofannefndra hverfa sem þar eiga lögheimili, teljast félagar. Kjörgengi hafa allir lögskráðir íbúar svæðisins 18 ára og eldri. Íbúar utan félagssvæðis geta skráð sig sem stuðningsfélaga.

4. grein

Stjórn ÍL skal skipuð 7 aðalmönnum (formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og 3 meðstjórnendum) og 3 varamönnum . Stjórn skiptir með sér verkum. Að jafnaði skal miðað við að skipting aðal- og varamanna sé n.v. jöfn milli hinna þriggja skólahverfa.

Auglýsa skal eftir framboðum og tilnefningum til stjórnarsetu í aðalfundarboði. Framboð og samþykktar tilnefningar skulu berast stjórn ÍL að minnsta kosti sólarhring fyrir aðalfund. Frambjóðendum skal heimilt að kynna sig í stuttu máli á aðalfundinum áður en gengið er til kosningar. Kosning fer fram á aðalfundi þar sem einfaldur meirihluti ræður.

5. grein

Aðalfund skal halda á tímabilinu janúar-maí ár hvert.  Skal hann boðaður með a.m.k. viku fyrirvara í einu blaði sem borið er í öll hús á svæðinu, ásamt því að vera auglýstur á heimasíðu samtakanna og telst fundarboðunin þá lögleg.

6. grein

Dagskrá aðalfundar.

  • • Skýrsla stjórnar um störf á liðnu ári skal lögð fram.
  • • Endurskoðaðir reikningar fyrir liðið ár skulu lagðir fram til úrskurðar.
  • • Tillögur að lagabreytingum skulu teknar fyrir. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórninni eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og skal stjórn kynna þær í fundarboði aðalfundar. Samþykki 2/3 fundarmanna þarf til að lagabreytingar nái fram að ganga.
  • • Kosning stjórnar. Stjórnarkjör fer fram skv. 4 grein. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára.
  • • Skipa skal tvo endurskoðendur félagsins fyrir næsta ár.
  • • Önnur mál.

7. grein

Stjórn er heimilt að stofna nefndir á hverjum tíma eftir því sem þörf krefur. Nefndir skulu hafa fullt samráð við stjórnina um mál er varða samtökin. Stjórn tilnefnir fulltrúa og varafulltrúa í Hverfisráð Laugardals.

8. grein

Stjórnin skal boða til almenns félagsfundar ef ákveðnar óskir, studdar að amk 20 félagsmönnum koma fram þar að lútandi og skal sá fundur auglýstur og boðaður eins og um aðalfund væri að ræða. Stjórn getur boðað til málfunda um tiltekin málefni og nægir þá boðun með netpósti til skráðra félaga og auglýsing á heimasíðu, hvort tveggja með a.m.k. viku fyrirvara.

9. grein

Hætti samtökin störfum renna eignir samtakanna til æskulýðsmála í hverfinu.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 7.11.07 og öðlast þegar gildi.

 

Viðbótarupplýsingar (samþykktir stjórnar)*

Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir. Firmaritun félagsins er í höndum formanns. Starfstímabil félagsins er frá aðalfundi til aðalfundar. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. Starf félagsins er fjármagnað með styrkjum frá hinu opinbera/Reykjavíkurborg og frjálsum framlögum fyrirtækja og einstaklinga. Rekstrarafgangur gengur milli ára og skal varið í samræmi við tilgang félagsins. Stofnfélagar eru skv. 3. grein, en stjórn undirritar umsókn um firmaskráningu fyrir þeirra hönd. Dagsetning og undirskriftir allra stjórnarmanna.

* Þessi viðauki fylgdi lögum ÍL þegar við sendum þau til firmaskrár (vegna kröfu firmaskrár um að þessi atriði kæmu fram).